Fótbolti

Sagði Óla að við fengjum Hollendinga

Pétur Pétursson er sæmilega sáttur við dráttinn í dag
Pétur Pétursson er sæmilega sáttur við dráttinn í dag Mynd/AntonBrink

Pétur Pétursson aðstoðarlandsliðsþjálfari segist vera nokkuð ánægður með mótherja íslenska landsliðsins í riðlakeppni HM. Hann segist hlakka mikið til að fara á gamla heimavöllinn í Hollandi.

"Mér sýnist þetta bara vera nokkuð skemmtilegur riðill. Við lendum þarna á móti skemmtilegum liðum eins og Hollandi, Noregi og Skotum. Það eina sem er verra er að við skulum vera í riðli með fimm þjóðum, en ég held að þessir mótherjar henti okkur miklu betur en þeir sem við vorum með í síðustu riðlakeppni. Ég held að við höfum verið nokkuð heppnir með riðil þó þetta séu auðvitað allt mjög sterk lið," sagði Pétur í samtali við Vísi.

En hvað ætli hafi komið fyrst upp í hugann á honum þegar hann sá mótherja íslenska liðsins?

"Að fara á gamla heimavöllinn í Hollandi. Ég var búinn að segja við Ólaf að við fengjum Holland og það stóðst. Ég held að þetta sé fínn dráttur ef við skoðum til dæmis riðilinn sem Englendingar fengu þar sem þeir mæta Króatíu, Úkraínu, Hvíta-Rússland og Kasakstan. Þetta eru auðvitað rosalegir riðlar," sagði Pétur og telur að það gæti hentað íslenska liðinu ágætlega að eiga við mótherja sína nú.

"Það hefur hentað okkur ágætlega að spila við þjóðir eins og Norðmenn og Skota. Taktískt séð hentar okkur betur að spila við þessi lið heldur en austantjaldsþjóðirnar og svo eru í þessu styttri ferðalög, þannig að ég held að maður geti bara verið sáttur. Landsliðsmennirnir okkar eru líka margir að spila í þessum löndum þannig að þeir þekkja þar vel til," sagði Pétur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×