Innlent

Íslenskur prestur til Kenýa

Jakob Ágúst Hjálmarsson
Jakob Ágúst Hjálmarsson

Séra Jakob Á. Hjálmarsson, fyrrum dómkirkjuprestur, heldur á næstu dögum til Kenýa þar sem hann mun starfa sem sjálfboðaliði við fræðslusetur lúthersku kirkjunnar í Pókothéraði næstu þrjá mánuðina.

Þar mun Jakob kenna prédikurum og prestsnemum auk annarra hópa sem koma til styttri eða lengri dvalar á setrinu. Auk þess mun Jakob taka þátt í safnaðarstarfi eftir því sem tími og tök leyfa.

Íslendingar og Norðmenn hafa nú starfað að kristniboði og þróunarsamvinnu í héraðinu í þrjá áratugi. Öflug innlend kirkja sem telur rúmlega 20 þúsund manns hefur vaxið fram og er henni alfarið stýrt af heimamönnum.

Umfangsmikið þróunarverkefni hefur verið unnið á liðnum 15 árum á sviði heilsugæslu, menntunar og landbúnaðar með sérstakri áherslu á að bæta hag kvenna. Norska þróunarhjálpin hefur verið aðalstyrktaraðili verkefnisins. Þáttur Íslendinga hefur farið vaxandi á liðnum árum og eru heimamenn nú að byggja sex framhaldsskóla með styrk frá m.a. Kristniboðssambandinu og Þróunarsamvinnustofnun.

Kirkjan hefur með góðum stuðningi frá Íslandi og Noregi þegar byggt rúmlega 60 skóla í héraðinu.

Miðvikudaginn 2. janúar verður sérstök kveðjusamkoma fyrir séra Jakob Á. Hjálmarsson í Kristniboðssalnum, Miðbæ við Háaleitisbraut. Þar mun hann segja frá þeim verkefnum sem bíða hans og hann flytja hugleiðingu. Allir eru velkomnir á samkomuna sem hefst klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×