Enski boltinn

Arsenal aftur á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Arsenal fagna jöfnunarmarki Eduardo.
Leikmenn Arsenal fagna jöfnunarmarki Eduardo. Nordic Photos / Getty Images

Arsenal kom sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar á ný með 4-1 sigri á Everton í dag.

Tvö rauð spjöld litu dagsins ljós í leiknum en þeir Nicklas Bendtner og Mikel Arteta fengu báðir rautt. Bendtner fyrir tvær áminningar en Arteta fékk beint rautt fyrir meint olnbogaskot á Cesc Fabregas.

Thomas Gravesen var ekki með Everton vegna hnémeiðsla og Tony Hibbert var kominn í vörn liðsins á nýjan leik.

Hjá Arsenal voru þeir Tomas Rosicky og Emmanuel Adebayor á bekknum og fékk Ammanuel Eboue frí. Abou Diaby, Eduardo da Silva og Bendtner voru allir í byrjunarliði Arsenal.

Arsenal byrjaði ágætlega og voru þeir Bendtner og Eduardo frískir í framlínunni. En það voru heimamenn í Everton sem skoruðu fyrsta mark leiksins.

Tim Cahill náði að koma boltanum yfir línuna eftir hornspyrnu Mikel Arteta. Boltinn fór reyndar af þeim Bacary Sagna og Bendtner en hafnaði fyrir þeim Cahill og Yakubu og náði sá fyrrnefndi síðustu snertingunni.

Skömmu síðar fékk Bendtner gult fyrir klaufalega tæklingu á Joseph Yobo.

Um miðbik fyrri hálfleiksins var Everton með undirtökin í leiknum og ekki útlit fyrir að mikið myndi breytast í þeim efnum. Mikil rignign var á Goodison Park og leikmenn gengu ansi blautir til búningsklefa í hálfleik.

En eitthvað hafa leikmenn Arsenal hresst sig við í hálfleik því þeir voru ekki lengi að jafna metin. Gael Clichy gaf 50 metra langa sendingu fram á völlinn, Phil Jagielka missti af boltanum og Eduardo náði að afgreiða knöttinn í netið.

Eduardo var svo aftur að verki stuttu síðar og kom Arsenal yfir í leiknum. Hann hafði aftur betur í baráttu við Jakielka og skoraði af mikilli yfirvegun.

Um miðjan síðari hálfleikinn fékk svo Bendtner annað gult spjald fyrir fólskulegt brot á Andrew Johnson. Hann mátti þakka fyrir að fá ekki beint rautt.

Þrátt fyrir þetta náði Arsenal að bæta við tveimur mörkum og voru varamennirnir Adebayor og Rosicky þar að verki undir lok leiksins.

Öruggur sigur Arsenal því staðreynd og liðið er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar á nýjan leik, með tveggja stiga forystu á Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×