Enski boltinn

Van der Sar framlengir við United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Edwin van der Sar, markvörður Manchester United.
Edwin van der Sar, markvörður Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Hinn 37 ára gamli markvörður Manchester United, Edwin van der Sar, hefur framlengt samning sinn við félagið til eins árs.

Gamli samningurinn átti að renna út í lok tímabilsins og bjuggust margir við að hann myndi leggja hanskana á hilluna þá. Hann var reyndar um daginn orðaður við Barcelona þar sem hann myndi verða varamarkvörður Victor Valdez.

Van der Sar verður því hjá United til júnímánaðar 2009 að minnsta kosti en hann mun engu að síður leika sinn síðasta landsleik með Hollandi á EM í Austurríki og Sviss í sumar.

Alex Ferguson hefur ítrekað sagt að van der Sar sé besti markvörður United síðan Peter Schmeichel stóð á milli stanganna hjá félaginu á sínum tíma.

„Við erum ánægðir með þetta því reynsla hans hefur komið félaginu að góðum notum," sagði Ferguson. „Hann er númer eitt hjá mér í augnablikinu og á möguleika á því að halda þeirri stöðu á næsta tímabili. En Ben Foster mun hafa jafnað sig á sínum meiðslum næsta tímabil og verður endurkoma hans góð fyrir samkeppnina um stöðuna í byrjunarliðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×