Enski boltinn

Prosinecki hraunar yfir enska landsliðið

Aðeins Terry og Ferdinand ættu möguleika á að komast í lið Króata að mati Prosinecki
Aðeins Terry og Ferdinand ættu möguleika á að komast í lið Króata að mati Prosinecki NordicPhotos/GettyImages

Enska landsliðið er svo lélegt að aðeins tveir leikmenn þess kæmust í króatíska landsliðið - og það aðeins á varamannabekkinn. Þetta fullyrðir Robert Prosinecki, fyrrum landsliðsmaður og leikmaður Porsmouth.

Mikill hiti er milli Englendinga og Króata eftir að liðin háðu bitra baráttu í undankeppni EM og liðin lentu aftur saman í riðli í undankeppni HM. Framherjinn Michael Owen lét hafa eftir sér eftir síðari leikinn að tapið á Wembley væri ekki síður grátlegt í ljósi þess að enginn króatísku landsliðsmannanna kæmist í enska landsliðið.

Prosinecki, sem er einn aðstoðarmanna Slaven Bilic landsliðsþjálfara Króata, hefur nú svarað þessari fullyrðingu Owen fullum hálsi í samtali við Sun og segir staðreyndina einmitt þveröfuga við þá sem Owen hélt fram.

"Ég las það sem Owen sagði og það er bara enn eitt dæmið um hrokann í Englendingum, þrátt fyrir að við höfum skorað fimm mörk á þá og unnið báða leikina við þá í undankeppni EM," sagði hann og færði rök fyrir máli sínu.

"Ég er viss um að bæði Eduardo Da Silva og Mladen Petric eru báðir betri framherjar en Michael Owen og ef ég þekki Fabio Capello rétt - held ég að hann myndi mikið frekar velja annan Króatann í lið sitt en Owen ef hann hefði tök á því. Hvaða Englendingar gætu átt sæti í króatíska landsliðinu? Kannski John Terry og Rio Ferdinand - en þeir gætu þurfti að byrja leikinn á varamannabekknum," sagði Prosinecki




Fleiri fréttir

Sjá meira


×