Enski boltinn

Tottenham lagði Manchester City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steed Malbranque og Jamie O'Hara fagna síðara marki Tottenham í kvöld.
Steed Malbranque og Jamie O'Hara fagna síðara marki Tottenham í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Manchester City tapaði fyrsta leik sínum á heimavelli á tímabilinu er liðið tapaði fyrir Tottenham í kvöld, 2-0, í ensku deildabikarkeppninni.

Tottenham er þar með komið í undanúrslit keppninnar en sigurinn er enn merkilegri fyrir þá staðreynd að Didier Zokora, leikmanni Tottenham, var vikið af velli strax á 20. mínútu.

En þá var Tottenham þegar komið með forystuna í leiknum eftir að Jermain Defoe skoraði strax á fimmtu mínútu eftir fyrirgjöf Aaron Lennon.

Defoe var svo tekinn af velli eftir að Zokora fékk rauða spjaldið og var greinilegt að hann var allt annað en sáttur við þá ákvörðun Juande Ramos knattspyrnustjóra liðsins.

City reyndi hvað það gat til að jafna metin og komst nokkrum sinnum nálægt því. En þrátt fyrir sóknarþunga City náði Tottenham að bæta öðru marki við forystu sína þegar átta mínútur voru til leiksloka.

Steed Malbranque var þar að verki eftir sendingu varamannsins Jamie O'Hara.

Einn annar leikur var á dagskrá keppninnar í kvöld en nú er nýhafin framlenging í leik Blackburn og Arsenal. Síðarnefnda liðið komst yfir, 2-0, en Blackburn jafnaði metin og þannig fóru leikar í venjulegum leiktíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×