Innlent

Sveitastjóranum í Grímsey sagt upp

Sveitarstjóranum í Grímsey hefur verið sagt upp störfum vegna gruns um stórfelld fjársvik. Grímseyjarhreppur íhugar að breyta stjórnsýslureglum sínum vegna málsins.

Alfreð Garðarsson hreppsnefndarmaður í Grímsey segir að Brynjólfi Árnasyni sveitarstjóra hafi verið sagt upp störfum í gær og Garðar Ólason verið skipaður sveitarstjóri til bráðabirgða. Þessi ákvörðun er tekin vegna vissu að sögn Alfreðs um stórfelld fjársvik Brynjólfs, skjalafals, undanskot og fleira. Brynjólfur hefur að líkindum stolið milljónum frá hreppnum, segir Alfreð og naut þar yfirburða tölvukunnáttu umfram aðra hreppsnefndarmenn.

Skýringar sveitarstjórans voru ein samfelld lygaþvæla, segir Alfreð, en ástæða þess að hreppsnefndin ákvað að láta innsigla sveitarstjórnarskrifstofuna fyrir skömmu var sú að eyjaskeggjar voru smeykir um að Brynjólfur myndi eyða gögnum úr tölvu hreppsins og skemma sönnnunargögn um brotin.

Alfreð segir ekki spurningu hvort heldur hvenær málið fer lögformlega lögreglu- og dómstólaleið. Þá sé alveg á hreinu að Brynjólfur fái ekki frekari laun frá hreppnum. Það hefur flækt þetta mál að nánast ekkert samband hefur náðst milli sveitarstjórans og hreppsnefndar vegna veikinda hans eftir að grunur kviknaði um fjársvikin.

Í skoðun er nú að endurskoða reglur hreppsins um að oddviti sem jafnframt hefur hingað til verið sveitarstjóri fari með öll völd og umsýslu eins og var í tíð Brynjólfs. Grímseyingar hafa litið á sig sem eina samhenta fjölskyldu hingað til og málið er því mikið áfall fyrir eyjaskeggja, segir Alfreð Garðarsson hreppsnefndarmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×