Innlent

Helmingi fleiri líkamsárásir skráðar í nóvember í ár en í fyrra

Rúmlega helmingi fleiri líkamsárásir voru skráðar hjá lögreglunni í landinu í nóvember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum Ríkislögreglustjóra um afbrotatölfræði í nóvember í ár.

108 líkamsárásir voru skráðar hjá lögreglunni í nóvember í fyrra en í sama mánuði í ár reyndust þær 232. Fíkniefnabrotum fækkar hins vegar lítillega milli ára, úr 145 í 138 en þau voru 180 í nóvember árið 2005. Hegningarlagabrot í nóvember reyndust nærri 1400 og voru fleiri en í nóvember síðastliðin fjögur ár. Langflest brotanna eru sem fyrr á höfuðborgarsvæðinu.

Þá voru nærri fjögur þúsund hraðakstursbrot skráð í nóvember í ár en það er 167 prósent um meira en í sama mánuði í fyrra. Má það meðal annars rekja til betra eftirlits lögreglunnar.

Tölfræði Ríkislögreglustjóra leiðir enn fremur í ljós að á fyrri helmingi ársins var um helmingur ökumanna sem tekinn var fyrir hraðakstur á vegum, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund, á meira en 110 kílómetra hraða. Frá júli virðist hraðinn hins vegar hafa minnkað og í nóvember var aðeins fimmtungur þeirra sem stöðvaðir voru á sams konar vegum á yfir 110 kílómetra hraða. Segir lögregla hér geti hraðamyndavélar skipt máli en vélar í Hvalfirði voru teknar í notkun í júlí. Þá má benda á að sektarviðurlög voru hækkuð um mitt ár og hugsanlega hefur það haft áhrif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×