Innlent

Aflaverðmæti eykst um sjö prósent milli ára

Aflaverðmæti íslenskra skipa jókst um fjóra milljarða eða tæp sjö prósent á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

Aflaverðmætið nam rúmum 62 milljörðum króna frá janúar til september á þessu ári en var rúmir 58 milljarðar í fyrra. Aflaverðmæti septembermánaðar reyndist hins vegar 4,3 milljarðar og minnkaði um 1,6 milljarða frá september í fyrra.

Tölur Hagstofunnar leiða enn fremur í ljós að aflaverðmæti botnfisks jókst um rúm sjö prósent á milli ára nam tæpum 47 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins. Þannig jókst verðmæti þroskafla um 14 prósent, ýsu um fimmtung en ufsaaflinn dróst saman að verðmæti um rúm 12 prósent.

Aflaverðmæti uppsjávarafla jókst svo um tæp 17 prósent og nam rúmum 11 milljörðum. Munar þar mestu um verðmæti loðnu sem nam 4,2 milljörðum króna nú samanborið við 2,2 milljarða í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×