Innlent

Ráðherra vill skoða rafrænt eftirlit með farbannsbrotahöfum

Andri Ólafsson skrifar
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er á þeirri skoðun að skylda eigi þá sem úrskurðaðir hafa verið í farbann til þess að skrá sig á lögreglustöð á hverjum degi. Hann segir einnig að taka eigi til skoðunar möguleikann á rafrænu eftirliti í viðurlagakerfi lögreglu og fangelsisyfirvalda.

Þetta kemur fram í svari Björns við fyrirspurn Vísis um farbannsúrræðið en tveir karlmenn, sem grunaðir eru um aðild að nauðgun á Selfossi hafa rofið farbann og flúið land undanfarna daga.

Í kjölfarið hafa bæði sýslumaðurinn á Selfossi og lögreglustjórinn á Suðurnesjum bent á hversu erfitt sé að framfylgja úrskurðum um farbann þegar menn sem búsettir eru á Schengen-svæðinu eiga í hlut.

"Dómstólar hér hafa til þessa ekki viljað fallast á kröfu um að setja menn í gæsluvarðhald á þeim grunni einum að viðkomandi sé útlendingur og án tengsla við landið. Annars staðar í Evrópu virðast dómstólar taka mið af slíkum rökum

Eftir farbannsúrskurð er eðlilegt, að viðkomandi lögregla taki vegabréf af viðkomandi og skyldi hann til að skrá sig á lögreglustöð á hverjum degi.

Hvað sem líður rafrænum eftirlitsbúnaði er gæsluvarðhald öruggasta úrræðið. Með nýrri tækni er eðlilegt að taka að nýju til skoðunar, hvort innleiða eigi rafrænt eftirlit í viðurlagakerfi lögreglu og fangelsisyfirvalda," segir í svari Björns til Vísis.

Með svari sínu má segja að Björn taki undir orð Ólafs Helga Kjartanssonar sýslumanns á Selfossi sem kallað hefur eftir svipuðum breytingum á farbannsúrræðinu. Ólafur Helgi segir þessar breytingar nauðsynlegar þar sem farbann sé "veikt úrræði".

Í samtali við Vísi fagnaði hann hugmyndum dómsmálaráðherra og sagði þær í takt við þær nýju aðstæður sem lögregla búi nú við í kjölfar samkomulagsins um, Shengen-svæðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×