Innlent

Bæjarráð vill selja hlut Hafnarfjarðar í HS

Meirihluti bæjarráðs Hafnarfjarðar leggur til við bæjarstjórn að selja Orkuveitu Reykjavíkur nær allan hlut bæjarfélagsins í Hitaveitu Suðurnesja. Jafnframt að leita eftir því við Orkuveituna að fá hlut í henni í staðinn. Tillaga þessa efnis verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar á morgun en þá verður einnig tekin fyrir tillaga sjálfstæðismanna í málinu.

Það voru fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem lögðu fram sameiginlega tillögu á bæjarráðsfundi í dag. Í henni felst að lagt verður til við bæjarstjórn Hafnarfjarðar að hún samþykki að nýta ákvæði í viljayfirlýsingu milli Hafnarfjarðarbæjar og Orkuveitu Reykjavíkur frá 2. júlí 2007 varðandi sölu á eignarhlut bæjarfélagsins í Hitaveitu Suðurnesja.

Sú ákvörðun er jafnframt tekin á grundvelli þess hluthafasamkomulags sem í gildi er milli eignaraðila í Hitaveitu Suðurnesja hf. og undirritað var þann 11. júlí 2007, þar sem m.a. kemur fram að komi til sölu á hlut Hafnarfjarðarbæjar til Orkuveitu Reykjavíkur munu Reykjanesbær og Geysir Green Energy ehf. ekki nýta forkaupsréttarheimild sína að þeim hlut.

Hafnarfjarðarbær á tæplega 15 prósenta hlut í Hitaveitunni, sem metinn er á um átta milljarða, og er lagt til að 95 prósent þess hlutar verði seldur Orkuveitu Reykjavíkur. „Þá samþykkir bæjarstjórn Hafnarfjarðar jafnframt að teknar verði upp formlegar viðræður við Orkuveitu Reykjavíkur um möguleg kaup bæjarfélagsins á hlut í OR," segir í tillögunni.

Samkvæmt tillögunni að fela starfshópi sem er skipaður oddvitum þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að leita eftir samkomulagi við Orkuveitu Reykjavikur um hugsanleg hlutafjárskipti. Slíkt samkomulag verði i síðasta lagi gert fyrir lok febrúar 2008. Forsendur þeirra kaupa ráðist af því verðmati sem liggi fyrir á Orkuveitunni og sameiginlegri afstöðu varðandi framtíðarskipan dreifikerfis rafmagns innan lögsögu Hafnarfjarðar.

„Fyrir liggur að Hafnarfjarðarbær verður þriðjungshluthafi í Suðurlindum ohf. ásamt Grindavík og Sveitarfélaginu Vogum, en formlegur stofnfundur félagsins verður haldinn næstkomandi fimmtudag. Meginverkefni þessa nýja félags er að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna og íbúa þeirra varðandi náttúrauðlindir og mögulega nýtingu orkuauðlinda innan lögsagnarumdæma sveitarfélaganna," segir einnig í tillögunni.

Samkvæmt tillögu meirihluta bæjarráðs á og rekur Hafnarfjarðarbær bæði Vatnsveitu Hafnarfjarðar og Fráveitu Hafnarfjarðar og mun halda því eignarhaldi og þeim rekstri áfram með óbreyttu sniði.

Tillagan gerir ráð fyrir að bæjarráði verði falið að ganga frá tillögum um ráðstöfun á því fé sem fæst fyrir hlutinn í Hitaveitu Suðurnesja þegar fyrir liggur hvernig samkomulagi um hlutafjárskipti reiðir af og hversu stóran hluta Hafnarfjarðarbær selur í HS. Söluverð skal vera á genginu 7,0 en þar var gefið upp í umræddir viljayfirlýsingu frá 2. júlí sl.

Vilja að söluandvirði fari í greiðslu skulda

Sjálfstæðismenn lögðu einnig fram tillögu á fundi bæjarráðs í dag að bæjarstjórn ákveði að selja Orkuveitu Reykjavíkur allan hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja að nafnvirði 1.149.368.544 á genginu 7,0 í samræmi við viljayfirlýsingu frá því í sumar. Sjálfstæðismenn leggja til að fjármunirnir verði notaðir til að greiða niður skuldir og skuldbindingar Hafnarfjarðarbæjar. Lækkun á skuldum bæjarins og vaxtabyrði verði svo notað til að lækka útsvar, fasteignagjöld og aðrar álögur á bæjarbúa.

Tillögurnar tvær verða teknar fyrir á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×