Innlent

Engin niðurstaða komin í mál REI og GGE

MYND/Róbert

Engin niðurstaða er komin í viðræður Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Energy um viðskilnað félaganna en viðræður standa enn yfir. Mál gætu að hluta til skýrst í dag þegar bæjarráð Hafnarfjarðar ákveður hvort selja eigi hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til Orkuveitu Reykjavíkur.

Borgaryfirvöld ákváðu í síðasta mánuði að falla frá samruna REI og Geysis Green Energy sem gekk í gegn á umdeildum eigendafundi í Orkuveitunni í byrjun október. Var stjórn Orkuveitunnar falið að ganga frá málinu. Þann 16. nóvember ákvað svo eigendafundur Orkuveitunnar að fela Bryndísi Hlöðversdóttur stjórnarformanni að að ræða við aðra eigendur REI og Geysis Green Energy um framhald málsins og hefur þegar verið ákveðið að Orkuveitan kaupi aftur hlut Bjarna Ármannssonar, fráfarandi stjórnarformanns, og Jóns Diðriks Jónssonar í REI.

Að sögn Bryndísar Hlöðversdóttur er hins vegar ekki komin nein lending í málum REI og Geysis Green Energy en hún segir að málið sé í ágætri vinnslu. Hún býst við því að fundað verði vegna þess í vikunni. Bryndís segir REI og Geysi Green hafa unnið saman að ýmsum verkefnum að undanförnu og segir hraðann ekki fyrir öllu í málinu heldur að ná góðri niðurstöðu.

Meðal þess sem haft gæti áhrif á lausn málsins er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um það hvort rúmlega 15 prósenta hlutur bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja verði seldur Orkuveitunni. Samkvæmt upprunalegum samrunaáætlunum REI og Geysis Green átti hlutur Hafnfirðinga að fara inn í REI en ekki liggur fyrir hvernig þeim hlutum verður háttað nú þegar REI verður alfarið í eigu borgarinnar. Bæjarráð Hafnarfjarðar fundar sem stendur um sölu á hlut sínum.

Aðspurð segir Bryndís að ekki sé búið að ákveða hver taki við stjórnarformennsku af Bjarna Ármannssyni í REI en hann hættir um áramót. Unnið sé að málinu með það fyrir augum að ljúka því fyrir áramót enda geti félagið ekki orðið stjórnarformannslaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×