Innlent

Íslendingar styrkja Palestínu um 250 milljónir á þremur árum

MYND/Pjetur

Íslendingar leggja fram fjórar milljónir dollara, jafnvirði um 250 milljóna króna, til stuðnings Palestínumönnum á næstu þremur árum. Frá þessu greindi Gréta Gunnarsdóttir, sviðsstjóri alþjóða- og öryggismála í utanríkisráðuneytinu, á alþjóðlegri ráðstefnu um efnahagsstuðning við Palestínu sem fram fer í París í dag.

Ráðstefnan er haldin í framhaldi af friðarviðræðum í Annapolis í nóvember og er markmiðið að styðja við bakið á tveggja ára umbóta- og þróunaráætlun heimastjórnar Palestínumanna.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að ráðuneytið hafi undanfarna mánuði unnið samkvæmt sérstakri framkvæmdaáætlun um Miðausturlönd sem samþykkt var í ríkisstjórn og rædd í utanríkismálanefnd eftir ferð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra til Miðausturlanda í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×