Innlent

Ríkið lokað á Þorláksmessu

Vínbúðirnar verða lokaðar á Þorláksmessu og 30. desember, daginn fyrir gamlársdag að þessu sinni. Lögum samkvæmt er óheimilt að hafa opið á sunnudögum í áfengisverslunum.

„Á Þorláksmessu í fyrra voru 32.568 manns afgreiddir í Vínbúðunum og 30. desember voru 38.156 afgreiddir. Í vikunni fyrir jól í fyrra voru afgreiðslur 113.433 og í vikunni fyrir áramót voru þær 94.765. Ljóst er því að margir verða að breyta út frá innkaupavenjum sínum í ár," segir í tilkynningu frá Vínbúðunum.

Þar segir einnig að reynt verði að koma til móts við neytendur með því að hafa opið á höfuðborgarsvæðinu og í stærri verslunum svo sem á Akureyri, Keflavík og Selfossi er til tíu um kvöldið laugardaginn 22. desember. Fimmtudag og föstudag fyrir jól er afgreiðslutíminn frá ellefu að morgni til átta um kvöldið og sama á við um föstudag og laugardag fyrir áramót.

Opið er frá 9 - 13 á aðfangadag og frá 9 - 14 á gamlársdag. Vínbúðirnar í Kringlunni og Smáralind verða þó ekki opnaðar fyrr en 10.00 þessa daga.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×