Enski boltinn

Barton tryggði Newcastle sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Obafemi Martins í baráttu við Aaron Hughes í dag.
Obafemi Martins í baráttu við Aaron Hughes í dag. Nordic Photos / Getty Images

Joey Barton tryggði Newcastle sigur á útivelli gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Leikurinn var annars fremur bragðdaufur, ólíkt hinum leikjum dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Fulham gerði þrjár breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn. Carlos Bocanegra, Hameur Bouazza og Clint Dempsey vour allir í byrjunarliðinu. Hjá Newcastle var Claudio Cacapa í byrjunarliðinu á kostnað Steven Taylor.

Newcastle byrjaði betur í leiknum en Fulham beitti hættulegum skyndisóknum. Leikurinn var þó heldur tíðindalítill framan af og var staðan í hálfleik markalaus.

Síðari hálfleikur var aðeins líflegri en án þess þó að verulega hættuleg marktækifæri litu dagsins ljós.

Mark Viduka var reyndar afar nálægt því að stýra boltanum í netið aðeins nokkrum sekúndum eftir að hann kom inn á sem varamaður en allt kom fyrir ekki.

Það var ekki fyrr en í blálokin að vítaspyrna var dæmd á Elliot Omozusi fyrir að brjóta á Alan Smith. Sem fyrr segir skoraði Joey Barton örugglega úr vítinu og tryggði Newcastle dýrmætan sigur.

Newcastle er í tíunda sæti deildarinnar með 25 stig en Fulham í því átjánda með þrettán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×