Innlent

Dæla tugmilljónum lítra af bensíni í olíugeyma í Hvalfirði

Erlendir spákaupmenn eru að láta dæla 40 milljónum lítra af bensíni úr olíuskipi upp í olíugeyma í Hvalfirði, til að flytja þá aftur úr landi þegar verð hækkar á heimsmarkaði. Dæling er hafin þótt athugasemdum heimamanna um öryggismál, vegna þessa hættulega farms, hafi ekki enn verið svarað.

Skipið , sem er 75 þúsund tonn að stærð, eða fjórfalt stærra en þau olíuskip, sem koma með olíu og bensín fyrir Íslandsmarkað, liggur nú fyrir ankerum í Hvalfirði, eftir að tveir öflugir dráttarbátar komu því til aðstoðar í fyrradag, þegar óveður skall á. Ekki liggur fyrir hvort skipið var hætt komið, en þá var búið að dæla um það bil 40 milljónum lítra í land, -og hættir skipstjórinn nú ekki á neitt. Farmurinn í heild svarar til hátt í þriggja mánaða bensínnotkunar hér á landi. Bensíninu er dælt upp framan við hrörlega bryggjuna við Hvalstöðina, þar sem óviðkomandi er haldið frá með enfaldri snúru með veifum. Aðeins stein snar frá er hinsvegar örugg olíubryggja NATÓ. Þegar olíudreifing, sem á geymana, óskaði eftir að fá að breyta þeim úr olíugeymum í bensíngeyma, gerði Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar margar athugasemdir, meðal annars varðandi ástand geymanna og öryggisgæslu vegna bensínbirgða.

Fréttastofunni er kunnugt um að stjórnendur Faxaflóahafna hafi gert stjórnvöldum viðvart um bensínflutninganna, en er ekki kunnugt um viðbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×