Innlent

Veðurguðirnir hömluðu komu biskupa

Veðurguðirnir settu strik í reikninginn við skipulag innsetningar á nýjum Reykjavíkurbiskupi Kaþólsku kirkjunnar í morgun. Til stóð að tólf útlendir biskupar kæmu til landsins til að taka þátt í athöfninni en vegna truflana á flugi komst aðeins einn í tæka tíð.

Jóhannes Gijsen hefur verið Reykjavíkurbiskup Kaþólsku kirkjunnar síðastliðin tólf ár. Í byrjun október varð hann sjötíu og fimm ára og óskaði þá eftir að láta af embætti. Í sama mánuði tilnefndi Benedikt páfi sextándi Pétur Bürcher til að taka við af honum og var hann settur í embætti Reykjarvíkurbiskups í Kristskirkju í dag.

Bürcher er svissneskur og hefur síðustu þrettán ár verið aðstoðarbiskup í Sviss. Honum fylgdu til landsins tveir svissneskir lífverðir sem tóku þátt í athöfninni í dag, en menn úr lífvarðasveitinni hafa ekki komið hingað áður.

Bürcher flaug til Íslands á fimmtudag en til stóð að í gær kæmu tólf biskupar frá Þýskalandi, Sviss, Svíþjóð og víðar til að taka þátt í athöfninni. Þar sem allt millilandaflug lá niðri í gær vegna veðurs komst aðeins einn þeirra í tæka tíð, sem kom hingað í morgun frá Kaupmannahöfn.

Þar sem sænski biskupinn átti að setja Pétur í embættið þurfti að fá sérstaka undanþágu frá Páfagarði til að Reykjavíkurbiskupinn fráfarandi gæti í hans stað sett eftirmann sinn í embættið.

Fjölmennt í Kristskirkju í morgun en á meðal kirkjugesta voru forsætisráðherra, menntamálaráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra og Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×