Enski boltinn

Stuðningsmenn West Ham sjá eftir Eggert

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ray Tuck við barinn í klúbbhúsinu.
Ray Tuck við barinn í klúbbhúsinu.

Ray Tuck, formaður stuðningsmannafélags West Ham, segir það sárt að sjá eftir Eggerti Magnússyni. „Hann var ekta," sagði hann við Vísi.

Tuck rekur einnig barinn þar sem stuðningsmannafélagið er með bækistöðvar sínar en hann er staðsettur við Boylen Ground, heimavöll West Ham.

Hann sagði að þar sem þetta var aðeins tilkynnt í gær hafi ekki neinn tími gefist til að skipuleggja sérstakar aðgerðir til að kveðja Eggert.

„Þetta voru afar óvæntar fréttir og um leið vonbrigði því öllum líkaði vel við hann," sagði Tuck. „Það var gaman að vera með stjórnarformann sem var svo áberandi eins og hann var. Þeir eru svo margir sem fela sig upp á skrifstofu og láta helst aldrei sjá sig."

Tuck segir að hann sjái eftir honum sem og fleiri. „Hann var mikill karakter og þurftum við á einhverjum slíkum að halda, sérstaklega síðasta tímabili. Sumir í hans stöðu sitja í heiðursstúkunni og virðast vera alveg sama um allt og alla. Eggert lifði sig hins vegar inn í leikinn og virtist vera 100 prósent ekta. Þetta snerist ekki bara um peninga hjá honum heldur gerðist hann stuðningsmaður félagsins af lífi og sál. Fyrir þessu fundu stuðningsmenn West Ham."

Hann sagði einnig að honum hafi aldrei gefist kostur til að hitta Eggert þó svo að hann hafi óskað eftir því.

„Það hefur verið svo mikið að gera hjá honum að það gafst ekki tækifæri til þess. En við viljum vita hvað bíður okkar eftir að félagið flytur á nýjan völl. Stuðningsmannafélagið var stofnað fljótlega eftir síðari heimsstyrjöldina og margir öfunda okkur af aðstöðunni okkar. Stuðningsmannafélagið er einnig afar vel þekkt víða um Bretland."

Tuck sagði að hann ætlaði nú að reyna að funda með Björgólfi Guðmundssyni eiganda West Ham og nýjum stjórnarformanni.

„Við kölluðum hann alltaf Eggbert," sagði Tuck og hló. „En við höfum í raun aldrei kynnst honum vel. En vonandi snýr hann félaginu á rétta braut."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×