Innlent

Óvíst hvort þingi verður frestað í kvöld

MYND/GVA

Samþykkt var á þingfundi í morgun að vísa þingskapafrumvarpi til þriðju umræðu við mótmæli vinstri - grænna.

Önnur umræða um frumvarpið stóð fram til klukkan hálfþrjú í nótt og komu þingmenn saman aftur til fundar nú klukkan hálfellefu. Alls eru 16 mál á dagskrá þingfundarins og ætlunin er að ljúka afgreiðslu allra þeirra áður en þingi verður frestað fram yfir jól.

Að sögn Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, standa vonir til að klára málin í kvöld en óvíst sé hvort það takist. Það ætti þó að vera hægt með góðum vilja.

Sem stendur er rætt um frumvarp ríkisstjórnarinnar til almannatrygginga sem felur meðal annars í sér flutning á málefnum aldraðra frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis.

Þá á einnig að setja á fót stofnun sem á að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd þeirra málaflokka almannatrygginga sem heyra undir heilbrigðisráðherra. Þessu hafa Vinstri - grænir mótmælt í morgun og segja að verið sé að einkavæða heilbrigðiskerfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×