Enski boltinn

Gengið frá ráðningunni í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello, verðandi landsliðsþjálfari Englands.
Fabio Capello, verðandi landsliðsþjálfari Englands. Nordic Photos / Getty Images

Enska knattspyrnusambandið mun halda áfram viðræðum sínum við Fabio Capello en stjórn sambandsins samþykkti ráðningu hans í gær.

Aðeins á eftir að ganga frá fáeinum smáatriðum en ekki er talið að það muni koma í veg fyrir að Capello verði næsti landsliðsþjálfari Englands.

Samningur hans nær til fjögurra og hálfs árs og er talinn tryggja Capello allt frá 500 til 750 milljóna króna í árslaun.

Líklegt er að Capello verði formlega kynntur fyrir fjölmiðlum sem nýr landsliðsþjálfari á mánudaginn næstkomandi.

Capello hefur undanfarið starfað hjá ítalskri sjónvarpsstöð og vill hún halda honum í starfi fram yfir úrslitakeppni EM 2008 en talið er að enska knattspyrnusambandið vilji að hann hætti þeim störfum um næstu áramót.

Talsmaður enska knattspyrnusambandsins sagði í gær að stjórnin væri samþykk ráðningu Capello svo lengi sem aðilar myndu ná saman í samningaviðræðum sínum.

Talið er að Capello vilji fá þrjá eða fjóra Ítali sér við hlið og er einn þeirra Franco Baldini sem hefur lengi starfað sem aðstoðarmaður hans. Aðrir sem hafa áður starfað með Capello er þjálfarinn Italo Galbiati, þolþjálfarinn Massimo Neri og markvarðaþjálfarinn Franco Tancredi.

Áður hefur verið greint frá því að Björgólfur Guðmundsson vilji ráða Baldini sem yfirmann íþróttamála hjá West Ham en Brasilíumaðurinn Leonardo hefur einnig verið orðaður við þá stöðu.

Þá verður einnig enskur þjálfari ráðinn í teymi Capello og er talið líklegast að Stuart Pearce verði fyrir valinu þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×