Innlent

Ekki búist við stóru hlaupi í Skeiðará

Ekki er búist við stóru hlaupi í Skeiðará að þessu sinni. Hlaupið kemur úr Grímsvötnum og síðast þegar hljóp úr lóninu þar í nóvember árið 2004 fylgdi eldgos í kjölfarið.

Vatnshæðin í lóninu áður en hlaupið hófst núna var lægri en fyrir hlaupið 2004 og búast sérfræðingar Orkustofnunar ekki við stóru hlaupi en grannt er fylgst með framvindu mála

„Við gerðum ekki ráð fyrir hlaupi á þessum tíma enda er vatnsborð frekar lágt," segir Gunnar Sigurðsson, verkfræðingur hjá Vatnamælingum Orkustofnunar. Hann segir að rennsli árinnar í gær hafi verið talið álíka mikið og gott sumarrennsli og brennisteinslykt hafi fundist á Skeiðarársandi. Hann segir jafnframt að rennslið sé enn að aukast. „Það er ekkert sem bendir til þess að eldgos verði í Grímsvötnum við þetta hlaup," segir Gunnar enn fremur.

Gunnar segir að hlaup í Skeiðará fari af stað þegar vatn úr Grímsvötnum standi nægilega hátt til að ná að brjóta sér leið undir Skeiðarárjökul. Vatnstaðan í Grímsvötnum hafi verið frekar lág við upphaf hlaupsins nú svo að öllum líkindum verði hlaupið lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×