Innlent

Slokknar á friðarsúlunni um helgina

MYND/Valur Hrafn

Kveikt verður á friðarsúlu Yoko Ono í Viðey í síðasta sinn á þessu ári á laugardaginn kemur og verður fjölbreytt dagskrá á vegum borgarinnar í eynni að þeim sökum.

Kveikt var á súlunni á fæðingardegi Johns Lennon 9. október síðastliðinn og á hún að loga fram á dánardægur hans hvert ár, það er 8. desember.

Dagskráin í Viðey hefst klukkan tvö á laugardag með listsmiðju í umsjá Listasafns Reykjavíkur en rétt fyrir þrjú stýrir Sr. Örn Bárður Jónsson stuttri friðarstund í Viðeyjarkirkju þar sem Dómkórinn syngur nokkur lög. Að því loknu verður kyndlaganga að listaverkinu með leiðsögn. Siglt verður út í eyna á klukkutímafresti frá klukkan 13.15 og heim til klukkan hálfsex.

Um kvöldið verður klukkan níu sérstök friðarsigling frá Skarfabakka þar sem Einar Ágúst syngur velvalin Bítlalög á leiðinni til Viðeyjar. Í eyjunni fá gestir kyndla og ganga saman að friðarljósinu. Fólk er beðið um að panta í ferðina í síma 555-3565.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×