Innlent

Árni vill að Bjarni Harðar biðjist afsökunar

MYND/GVA

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ sergir Bjarna Harðarson, þingmann Framsóknarflokksins hafa farið með „algjör ósannindi" á Alþingi í dag. Bjarni sagði í ræðustól að sér hefði verið sagt að Árni ætti persónulega í Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og í Keili. Árni krefst þess að Bjarni biðjist afsökunar.

Á Alþingi í dag flutti forsætisráðherra skýrslu um málefni Þróunarfélagsins og í umræðum á eftir lét Bjarni Harðarson þau orð falla að sér væri sagt að auk þess að sitja í stjórnum fyrirtækjanna tveggja fyrir hönd Reykjanesbæjar ætti Árni persónulega hluti í fyrirtækjunum.

„Þarna flytur hann algjör ósannindi," segir Árni Sigfússon í samtali við Vísi. „Ég á engra persónulegra hagsmuna að gæta í einu einasta fyrirtæki á Vallarheiðinni," segir Árni og bætir því við að hann sitji í stjórnum fyrirtækjanna sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar. „Mér finnst eðlilegt að þingmaðurinn biðjist velvirðingar á þessum ummælum," segir Árni.

Að mati Árna er umræðan öll mjög ósanngjörn. „Hún gengur beinlínis út á að níða niður mikilvægt verkefni sem vel hefur verið staðið að þó ég segi sjálfur frá."

Árni gefur ennfremur lítið fyrir fullyrðingar þess efnis að hann hafi verið vanhæfur þegar Þróunarfélagið seldi BASE, fyrirtæki sem Steinþór Jónsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ á hlut í, skemmur á vallarsvæðinu.

„Það er gjörsamlega út í hött. Ég er ekki á neinn hátt skyldur Steindóri svo ég viti til og ég sænga heldur ekki með honum. Ég veit því ekki hvaða ástæður ættu að gera mig vanhæfan í málinu. Það er ekki nóg að hann skuli vera bæjarfulltrúi og í Sjálfstæðisflokknum, það gerir hann ekki vanhæfan til að sinna viðskiptum sem koma þeirri staðreynd ekkert við," segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×