Innlent

Staðan í málum Þróunarfélagsins verri eftir daginn

Atli Gíslason, þingmaður VG.
Atli Gíslason, þingmaður VG.

Atli Gíslason, þingmaður VG segir að staðan í málefnum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og sala þess á eignum á vellinum sé verri ef eitthvað er í dag en hún var í gær, þrátt fyrir skýrslu forsætisráðherra um málið.

„Það komu engar skýringar fram og ég hef enn ekki fengið þau gögn sem ég hef óskað eftir," segir Atli í samtali við Vísi. Hann segir Jón Bjarnason kollega sinn hafa séð kaupsamningana sem gerðir voru þegar Háskólavellir keyptu 1700 íbúðir á gamla varnarsvæðinu og þegar BASE keypti flugskýli. „Í þeim er gert ráð fyrir að skipta megi eignunum niður á fleiri félög. Ég lít svo á að með þessari klausu geti þeir skipt góssinu niður á milli flokksgæðinga," segir Atli en þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt tengsl sem þeir segja á milli kaupenda eignanna og Sjálfstæðisflokksins.

Atli gagnrýnir einnig samfylkingarmenn fyrir frammistöðu sína á þingi í dag. „Samfylkingin fór í fullkomna málsvörn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og gagnrýnir þetta ekkert þrátt fyrir stefnu flokksins og frægar Borgarnesræður formannsins."

Að mati Atla er Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ,og stjórnarmaður í þróunarfélaginu, „bullandi vanhæfur" gagnvart stjórnsýslulögum. „Nánir samstarfsmenn í sveitarstjórn eiga ekki að eiga viðskipti við hvort annan," segir Atli og á þá við að Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ á hlut í BASE, fyrirtækinu sem keypti byggingar á flugvallarsvæðinu á 700 milljónir króna. Atli segist vita til þess að fólk hafi boðið í stakar skemmur og segir hann verðtilboð í þær gefa til kynna að BASE hafi fengið skemmurnar á spottprís.

Atli segist einnig efast um að úttekt Ríkisendurskoðunar eigi eftir að skila miklu. „Ég spyr mig hvort Ríkisendurskoðun, sem er endurskoðandi Þróunarfélagsins, geti endurskoðað sjálft sig. Í svona máli tel ég því eðlilegt setja á stofn sjálfstæða rannsóknarnefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×