Innlent

Aðgerðir í málum öryrkja og aldraðra alltof litlar og götóttar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra og öryrkja, sem kynntar voru í gær, alltof litlar og götóttar. Þetta kom fram við umræðu við upphaf þingfundar í dag.

Geir H. Haarde forsætisráðherra kvaddi sér hljóðs undir liðnum störf þingsins og kynnti fyrir þingheimi þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst ráðast í á næstu tveimur árum. Meðal þess er að afnema skerðingu tryggingabóta vegna tekna maka aldraðra og öryrkja og þá á einnig að hækka frítekjumark á mánuði úr 25 þúsund í 100 þúsund. Sagði Geir von á fleiri aðgerðum á kjörtímabilinu í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Steingrímur sagði ástæðu til að fagna því að ríkisstjórnin hrykki upp af dvalanum og sýndi lit. Benti hann á að þingflokkar Vinstri - grænna og Fjrálslynda flokksins hefði lagt til í frumvarpi að fimm milljarðar færu strax inn í málaflokkinn á næsta ári. „Þetta eru því miður alltof litlar og götóttar aðgerðir," sagði Steingrímur og benti á að kjör aldraðra og öryrkja væru að versna. Þannig myndu komugjöld á heilbrigðisstofnunum hækka á næsta ári og þá hefði húsnæðiskostnaður einnig hækkað gríðarlega. Sagði hann að það væri með blendnum tilfinningum að hann fagnaði að ríkissstjórnin sýndi lit en vonbrigði væru að aðgerðirnar kæmu svona seint, væru svona litlar og götóttar.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokknum, fagnaði kjarabótum til þeirra sem minnst hafa í samfélaginu og sagði þetta í samræmi við þær kjarabætur sem gerðar hefðu verið á síðustu árum. Hann óttaðist þó að enn væri verið að skilja eftir þá hópa eftir sem sárast væru settir. Þá sagði hann ríkisstjórnina verða að gá að sér því versti þjófurinn á Íslandi væri verðbólgan og vinna yrði gegn henni.

Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda glokksins, sagði flokkinn fagna því að lögð væri áhersla á að bæta kjör þeirra sem verst væru settir. Þá minnti hann á frumvörp frjálslyndra í þessum efnum og sagði ríkisstjórnina hafa með aðgerðum sínum tekið undir tillögur þeirra. Þessar aðgerðir væru áfangi á réttri leið en gera þyrfti betur við aldraða og öryrkjar.

Stjórnarliðar sögðu að hér væri verið að taka gott skref í átt til bættra kjara aldraðra og öryrkja. Sagði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra að Steingrímur J. Sigfússon væri í gamalkunnum neikvæðnisham en hrósaði formanni Framsóknarflokksins og Kristni H. Gunnarssyni fyrir málefnalega umræðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×