Innlent

Ráðherra beitir sér ekki í stóra bleika og bláa málinu

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra segist ekki munu beita sér fyrir því að að nýfædd börn verði klædd í hvít föt eða kynhlutlausari liti á fæðingardeildum. Þetta kom fram í svari hans við frægri fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingkonu Vinstri - grænna, í hinu svokallað bleika og bláa máli.

Kolbrún sagði kveikjuna að fyrirspurninni áhugi hennar á mismunandi stöðu kynjanna í samfélaginu en ýmsar rannsóknir hefðu sýnt að kynin væru strax aðgreind í frumbernsku. Talað væri öðruvísi um stráka en stelpur og þetta hefði áhrif á stöðu kynjanna í samfélaginu.

Því spurði Kolbrún hvernig sú hefð hefði mótast á fæðingardeildum opinberra sjúkrastofnana að nýfædd stúlkubörn væru klædd í bleikt en drengir í blátt og þeir auðkenndir með bláum armböndum og stúlkur með bleikum. Enn fremur hvort ráðherra teldi koma til greina að breyta þessu þannig að nýfædd börn yrðu klædd í kynhlutlausari liti.

Heilbrigðisráðherra svaraði því til að talið væri að þessi aðgreining hefði byrjað í kringum 1955 á fæðingardeildum en áður hefðu börn verið klædd í hvítt. Við stofnun Fæðingarheimilisins árið 1960 hefði verið lögð aukin áhersla á að gera fæðingardeildir heimilislegar þannig að foreldrum liði vel. Hluti af því hafi verið að klæða stúlkur í rósótt föt með bleiku ívafi og pilta í rósótt föt með bláu ívafi. Þetta hefði svo þróast út í bleik og blá klæði.

Varað við miðstýrðri ákvörðun

Guðlaugur sagði að leitað hefði verið til fjölmargra aðila til þess að svara spurningum Kolbrúnar og fram hefði komið á öllum stöðum að þessi aðgreining væri gerð til að auðvelda samskipti við foreldra. Það skipti máli í þeim samskiptum að kyngreina barnið rétt. Þá segðu starfsmenn heilbrigðisstofnana að boðið væri upp á fleiri liti eins og gulan, grænan og hvítan og hlustað væri á óskir foreldra í þessum efnum.

Varðandi síðari spurninguna sagði Guðlaugur að allir sem rætt hefði verið við hefðu varað við að taka miðstýrða ákvörðun um klæðnað nýfæddra barna og þá kannaðist enginn við óánægju með þetta fyrirkomulag. Enn fremur benti Guðlaugur á að það kostaði fjórar milljónir að skipta út fötum á heilbrigðisstofnununum. Því teldi hann ekki koma til greina að beita sér í málinu þar sem fólk væri ánægt með þjónustuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×