Innlent

Eignir á fyrrum varnarsvæði greiddar á fjórum árum

MYND/Víkufréttir

Þær eignir sem seldar hafa verið á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli á þessu ári verða greiddar á næstu fjórum árum. Þetta kemur fram í framhaldsnefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar vegna frumvarps til fjáraukalaga þessa árs.

Í nefndarálitinu er bent á að kostnaður við sölu eigna á varnarsvæðinu gamla nemi nærri 1,2 milljörðum á þessu ári og er þar aðallega um að ræða útgjöld í tengslum við lagfæringar og breytingar á fasteignum til að koma þeim í söluhæfara ástand.

Áætlað 15,7 milljarðar króna fáist fyrir eignir á svæðinu á þessu ári, en þess má geta að 14,4 milljarðar fengust þegar nærri 1700 íbúðir voru seldar til félagsins Háskólavalla í haust. Samkvæmt samningum greiðast þessir tæpu 16 milljarðar á næstu fjórum árum, þar af 3,5 milljarðar á þessu ári.

Áætlað er að heildarsöluandvirði eignanna á varnarsvæðinu geti orðið allt að 18 milljarðar króna þegar umbreytingu svæðisins verður lokið á næstu 3-4 árum en að kostnaður við lagfæringar eigna og hreinsun á svæðinu geti orðið um helmingur af því. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar annast þróun, umsjón og ráðstöfun eigna á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×