Innlent

66° Norður hlýjar börnum á fæðingardeildinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Starfsmenn fæðingadeildarinnar tóku á móti gjöfunum í dag. F. v. Margrét Hallgrímsson, Helga Viðarsdóttir, markaðsstjóri 66°Norður, Rósa G. Bragadóttir, Hjördís María Ólafsdóttir og Rannveig Rúnarsdóttir.
Starfsmenn fæðingadeildarinnar tóku á móti gjöfunum í dag. F. v. Margrét Hallgrímsson, Helga Viðarsdóttir, markaðsstjóri 66°Norður, Rósa G. Bragadóttir, Hjördís María Ólafsdóttir og Rannveig Rúnarsdóttir.

Sjóklæðagerðin 66° Norður færði í dag fæðingadeild Landspítala gjafir að andvirði tæplega tvær milljónir króna fyrir nýfædda Íslendinga.

Um er að ræða 400 pakka af flíshúfum, sokkum og vettlingum sem eiga væntanlega eftir að koma sér vel á köldustu vetrarmánuðum. Í tilkynningu frá 66° Norður segir að það sé von allra starfsmanna fyrirtækisins að þessi gjöf eigi eftir að koma sé vel og verði búbót fyrir nýbakaða foreldra.

Margrét Hallgrímsson, sviðstjóri á kvennadeild Landspítalans, segir að það ekki einsdæmi að deildinni berist tilboð um gjafir eins og þessar. „Við erum að sjálfsögðu þakklát fyrir allan þann hlýhug sem við finnum fyrir í samfélaginu. Við reynum hins vegar að vera mjög íhaldssöm þegar við þiggjum gjafir sem þessar," segir hún. Margrét bendir á að gjafirnar frá 66° Norður hafi verið fallega innpakkaðar og óneitanlega muni þær koma sér vel fyrir skjólstæðinga deildarinnar.

Margrét vekur sérstaka athygli á því að auk gjafa eins og þeim sem deildinni barst frá 66° Norður fái deildin fjölmargar vandaðar gjafir frá líknarfélögum sem komi að góðum notum. „Líknarfélög hafa til dæmis gefið dýr tæki sem nýtast þá öllum skjólstæðingum deildarinnar. Fyrir það erum við að sjálfsögðu mjög þakklát," segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×