Innlent

Ekkert að frétta af stjórnarskrárnefnd

Vinna við breytingar á stjórnarskránni hefur ekki farið í gang á nýjan leik eftir að ný stjórn tók við völdum. Geir Haarde sagði á Alþingi í dag að ekkert lægi á í þeim efnum og að best væri að fara í slíkt mál með áhlaupi á síðari hluta kjörtímabilsins. Siv Friðleifsdóttir spurðist fyrir um afdrif nefndarinnar sem falið var að gera tillögur um breytingar árið 2005 en ekkert hefur enn komið út úr þeirri vinnu.

Geir sagði að nefndin hefði unnið gott starf að mörgu leygi og að mikilvæg atriði hafi verið tekin fyrir. Hann sagði þó að engin heildstæð niðurstaða hefði fengist úr því starfi, aðeins ein tillaga hafi verið lögð fram á þingi sem ekki fékk afgreiðslu.

„Við hfum ekki komist að niðurstöðu með hvaða hætti eigi að halda þessu áfram," sagði Geir. „Málið er í biðstöðu en mín afstaða er að ýta því ekki úr vör fyrr en við erum vissum hvar það á að lenda," sagði Geir.

Siv sagði svar Geirs bera vott um að formenn stjórnarflokkanna hafi ekki náð samstöðu um hvernig málið eigi að fara. Hún sagði ófært að ætla sér að gera hlutina með áhlaupi við lok kjörtímabilsins, til þess sé málið of stórt í sniðum og mikilvægt.

Geir sagði rangt að túlka svar sitt sem merki um lélégt samstarf stjórnarflokkanna. Hann sagði einnig að nefndin sem skipuð var 2005 hafi unnið ákveðna grunnvinnu sem muni nýtast þegar til kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×