Innlent

7500 börn undir lágtekjumörkum

MYND/Vilhelm

7500 börn búa á heimilum sem eru undir lágtekjumörkum OECD hér á landi eftir því sem Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Það var Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sem spurði ráðherra hversu mörg börn hefði búið við fátækt hér á landi árið 2005 og 2006. Vísaði hann til skýrslu sem forsætisráðherra kynnti í fyrra þar sem fram kom hversu mörg börn hefðu verið undir fátæktarmörkum OECD árið 2004. Sagðist hann vera að fylgjast með þróun mála með fyrirspurninni.

Geir H. Haarde sagði að ekki hefði verið unnin önnur skýrsla líkt um málið en útreikningar á þessu væru nú í höndum Hagstofunnar sem ynni árlega skýrslu um málið samkvæmt sameiginlegum reglum EES-ríkjanna. Von væri á tölum fyrir árið 2005 í febrúar næstkomandi. 

Fram kom í svari forsætisráðherra að 7500 börn væru undir lágtekjumörkum samkvæmt nýjustu tölum en ekki væri teljandi munur á stöðu norrænu ríkjanna. 8-10 prósent barna á Norðurlöndum væru undir skilgreindum fátæktarmörkum en meðaltal ESB væri 19 prósent. Því væri Ísland í hópi þeirra ríkja þar sem minnst fátækt væri. Þá væri sem betur fer lítill hópur sem festist í fátækragildrum á Íslandi.

Þingmenn voru þó sammála um að 7500 börn undir lágtekjumörkum væri 7500 börnum of mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×