Innlent

Fór fram á gögn um sölu fasteigna á Keflavíkurflugvelli

MYND/GVA

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri - grænna, fór fram á það við Sturlu Böðvarsson, forseta Alþingis, og forsætisnefnd að aflað yrði allra gagna varðandi sölu eigna á Keflavíkurflugvelli. Sagðist Atli hafa upplýsingar um að eignir þar hefðu verið seldar á undirverði.

Sturla Böðvarsson tók til máls við upphaf þingfundar og gerði athugasemd við ummæli Atla á þingi í gær. Þar sagðist meðal annars Atli líta svo á að Ríkisendurskoðun væri að leggja stein í götu sína með því að afhenda honum ekki gögn um sölu á eignum á gamla varnarliðssvæðinu.

Benti Sturla á að Atli hefði átt að leggja fram beiðni til forsætisnefndar um þetta sem hefði þá samband við Ríkisendurskoðun. Atli sagði einkennilegt að hann fengi tiltal í málinu og sagði það grunnskyldu sína sem þingmanns að gæta að almannaeignum. Hann hefði farið í gegnum Alþingi en reyndar ekki forsætisnefnd.

Sagði hann eignir á Keflavíkurflugvelli hafi verið seldar á óeðlilegu verði og menn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefðu setið beggja vegna borðs. Sagði hann ástæðu til að ætla að maðkur væri í mysunni.

Undir kröfu Atla tóku flokksbræður hans, Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason og Streingrímur J. Sigfússon. Sögðu þeir að kallað hefði verið eftir gögnum í málinu í fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd en við því hefði ekki verið orðið. Gagnrýndu þeir fjármálaráðherra fyrir að neita að afhenda þinginu gögn.

Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagði rangt að hann hefði neitað þinginu um gögn. Gögnin væru í höndum Ríkisendurskoðunar og að mati ríkisendurskoðanda væri um viðskiptamál að ræða sem ekki væri hægt að opinbera. Ríkisendurskoðandi hefði boðið nefndarmönnum á Alþingi að skoða gögnin um sölu eignanna.

Töluverðar deilur hafa staðið um málið á Alþingi og því hefur enn ekki verið gengið til fyrirspurna. 

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, spurði síðan hvenær Ríkisendurskoðun hefði orðið milligöngumaður á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Benti hann á að stofnunin heyrði undir Alþingi en ekki framkvæmdavaldið. Taldi hann ærna ástæðu til þess að forsætisnefnd, sem væri eins konar stjórn Ríkisendurskoðunar, færi yfir það með hvaða hætti hlutir hefðu þróast í þessum efnum á síðustu misserum. Sakaði hann fjármálaráðherra um að nota Ríkisendurskoðun sem skjöld og framkvæmdavaldinu bæri að láta af hendi upplýsingar í málinu.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði furðulegt að verið væri að ræða málið efnislega undir liðnum fundarstjórn forseta. Fyrir lægi að forsætisráðherra hygðist flytja skýrslu um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar á morgun að beiðni þingflokksformanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×