Fótbolti

Skallameðal varð Tittinum að falli

Romario þarf líklega að sætta sig við skallann
Romario þarf líklega að sætta sig við skallann NordicPhotos/GettyImages

Markahrókurinn ótrúlegi Romario gæti neyðst til að leggja skóna á hilluna eftir að hafa fallið á lyfjaprófi fyrir að nota skallalyf. "Titturinn" eins og hann er kallaður í Brasilíu, ætlaði ekki að hætta fyrr en á næsta ári, en nú er búið að setja hann í bann.

Romario segist alls ekki hafa gert sér grein fyrir að skallalyfið sem hann tók inn væri á bannlista, en þekkt er að það hafi verið notað til að hylma yfir steraneyslu.

"Ég er orðinn 41 árs gamall og þriggja eða fjögurra mánaða bann fyrir mann á þeim aldri er mjög erfitt. Þetta gæti þýtt að ég þyrfti að hætta," sagði Romario, sem þó hafði húmor fyrir uppákomunni.

"Ég er hættur að nota lyfið þó það þýði líklega að hárið byrji að hrynja af mér aftur," sagði Romario.

Romario afrekaði það í fyrra að skora 1000. mark sitt á ferlinum þegar hann skoraði úr vítaspyrnu með liði sínu Vasco da Gama. Hann varð heimsmeistari með landsliði Brasilíu árið 1994 og er líklega frægastur fyrir tilþrif sín með Barcelona á Spáni. Hann var kjörinn leikmaður ársins árið 1994 og einn af 125 bestu leikmönnum allra tíma á 100 ára afmæli FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×