Innlent

Íslandspóstur lætur kanna mál sveitarstjórans í Grímsey

Íslandspóstur hefur hrundið af stað athugun á því hvort sveitarstjórinn í Grímsey hefur stolið frá fyrirtækinu. Frumathugun á meintum stuldi hans frá Grímseyjarhreppi er að ljúka.

Mál sveitarstjórans í Grímsey, Brynjólfs Árnasonar, verður umfangsmeira með hverjum deginum sem líður. Á morgun lýkur frumathugun á bókhaldi Grímseyjarhrepps en hreppsnefndarmenn hafa ásamt sérfræðingum skoðað gögnin og eru vísbendingar um að fjárdráttur sveitarstjórans sé umfangsmikill og margvíslegur eins og Stöð 2 hefur greint frá. Málið verður væntanlega á könnu lögreglunnar að þeirri athugun lokinni.

En það er ekki nóg með að sveitarstjórinn hafi nýverið verið dæmdur fyrir stórfelldan stuld á olíu og sé grunaður um skjalafals og fjárdrátt eftir að hann tók við sveitarstjórastöðunni. Stöð 2 hefur nú fengið staðfest hjá Íslandspósti að fyrirtækið hafi ákveðið að láta fara fram innanhússrannsókn vegna umsvifa fyrirtækisins í Grímsey.

Brynjólfur sveitarstjóri gegndi þar störfum fyrir Íslandspóst og ákvað fyrirtækið að láta gera þessa athugun eftir að mál sveitarstjórans urðu opinber. Hreppsskrifstofan í eynni var innsigluð síðastliðinn föstudag vegna gruns um óheiðarleika Brynjólfs og skömmu áður hafði hann játað sök fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra og hlotið skilorðsbundið fangelsi vegna stuldar á olíu.

Eyjaskeggjar eru miður sín en íbúar í eynni eru tæplega 100. Segja viðmælendur Stöðvar 2 að óheiðarleiki sveitarstjórans hafi komið fólki í opna skjöldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×