Innlent

Reykjavík hreinust borga á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum

Reykjavík reyndist hreinust af 14 borgum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum samkvæmt samnorrænni könnun sem gerð var í sumar meðal erlendra ferðamanna.

Fram kemur í tilkynningu frá Höfuðborgarstofu að markmið þessa verkefnis hafi verið að rannsaka hvernig væntingar ferðamanna til sífellt nýstárlegri upplifana gera nýjar kröfur til þeirra áfangastaða sem þeir sækja og hvaða áhrif það hafi á markaðssetningu borganna.

Rætt var við fimm þúsund ferðamenn í upplýsingamiðstöðum í borgunum 14 og þeir meðal annars spurðir um væntingar þeirra til borgarinnar og þá meðal annars um væntingar til hreinleika borgarinnar.

Reykjavík mældist samkvæmt könnuninni hreinust en Kaupmannahöfn reyndist hins vegar óhreinust að mati ferðamannanna. Fram kom í niðurstöðunum að Reykjavík reyndist enn hreinni en ferðamenn höfðu gert sér hugmyndir um.

Höfuðborgarstofa segir þessar niðurstöður styðja við kannanir sem hún hefur gert í Leifsstöð, en þar er meðal annars spurt hvort ferðamennirnir telji Reykjavík vera hreina borg. Rúmlega 80 prósent hafa svarað þeirri spurningu játandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×