Innlent

Breytingar á ráðstöfun Símapeninga til annarrar umræðu

MYND/GVA

Þingfundi lauk á Alþingi fyrir stundu en hann hafði staðið með hléum frá klukkan hálftvö í dag. Meðal þeirra mála sem tekin voru á dagskrá í dag var frumvarp til laga um breytingar á ráðstöfun á söluandvirði Símans.

Samkvæmt frumvarpinu á að fresta því að verja töluverðu af Símapeningunum sem ætlunin var að verja á næsta ári. Bent er á að í tengslum við fjárlagagerð fyrir árið 2008 hafi komið í ljós að fyrirhugaðar fjárveitingar samkvæmt gildandi lögum séu langt umfram það sem raunhæft sé að verja til framkvæmda á næsta ári. Er það vegna þess að framkvæmdirnar eru skemmra á veg komnar en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þannig verða lagðar 900 milljónir til Sundabrautar á næsta ári í stað nærri fjögurra milljarða en gert er ráð fyrir að framlag til brautarinnar verði hærra árið 2009 og 2010.

Þá verður 800 milljónum varið í nýtt háskólasjúkrahús á næsta ári í stað 1,5 milljarða og verða 700 milljónirnar færðar til áranna 2009-2011. Að lokum er gert ráð fyrir að 600 milljóna króna framlag til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða fyrir árið 2008 verði lækkað í 300 milljónir og hækkar framlagið sem því nemur árið 2009.

Samþykkt var að vísa frumvarpinu til annarrar umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×