Fótbolti

Kaka er bestur í Evrópu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kaka með verðlaunin í dag.
Kaka með verðlaunin í dag. Nordic Photos / AFP

Brasilíumaðurinn Kaka var í morgun útnefndur knattspyrnumaður Evrópu af tímaritinu France Football.

Kjörið kom fáum að óvart en að því standa íþróttablaðamenn víðs vegar í Evrópu.

Kaka var lykilmaður í sigri AC Milan í Meistaradeild Evrópu í vor en hann skoraði alls tíu mörk í keppninni á síðasta tímabili.

„Þetta er mjög sérstakt í mínum augum," sagði Kaka. „Þetta er góður endir á frábæru ári hjá mér."

Cristiano Ronaldo frá Portúgal, leikmaður Manchester United, var í öðru sæti í kjörinu og Argentínumaðurinn Lionel Messi, leikmaður Barcelona, í því þrijða.

„Þetta er ein af stærstu viðurkenningum sem hægt er að fá og er aðeins mögulegt að fá hana með því að spila með liði eins og AC Milan," sagði Kaka. „Það er frábært að vera hluti af liði sem vinnur stórar keppnir."

Kaka, Messi og Ronaldo eru allir tilnefndir sem knattspyrnumaður ársins af Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×