Fótbolti

Eigum möguleika gegn öllum nema Hollendingum

Logi Ólafsson
Logi Ólafsson

Logi Ólafsson, fyrrum landsliðsþjálfari og sérfræðingur Vísis segist nokkuð sáttur við mótherja landsliðsins í undankeppni EM. Hann segir íslenska liðið vel geta staðið í þjóðum eins og Skotum og Norðmönnum.

"Ég er bara bjartsýnn fyrir hönd þjóðarinnar í þessum riðli. Það hjálpar okkur kannski til við niðurröðunina á leikjunum að vera í fimm liða riðli því þá erum við að sleppa við leikina sem er verið að spila kannski í nóvember, því þá eru leikmennirnir sem eru að spila hérna heima dálítið út úr myndinni," sagði Logi um þá staðreynd að íslenska liðið spilar í fimm liða riðli. Hann segir liðið eiga ágæta möguleika á að gera vel í keppninni.

"Ég held að við eigum alveg möguleika gegn öllum þessu mótherjum fyrir utan kannski Hollendinga. Skotarnir voru auðvitað með okkur í riðli fyrir fjórum árum síðan og þá fannst mér íslenska liðið eiga að geta unnið þá, en þeir eru sterkari í dag og voru hársbreidd frá því að komast á EM."

"Ég þekki líka vel til norska liðsins og íslenska liðið á alveg að geta strítt þeim á góðum degi. Ég var svo með liðið þegar það spilaði við Makedóníu á sínum tíma. Þá gerðum við jafntefli við þá heima og töpuðum 1-0 úti þannig að ég held nú að það sé þjóð sem við eigum að geta unnið."

"Hollendingarnir eru frábærir mótherjar fyrir knattspyrnuáhugamenn og það verður gaman að fá þá hérna heim. Þeir hafa alltaf verið með mjög sterkt lið þó þeir hafi ekki náð að slá í gegn, en ég held að við getum alveg náð að stríða þeim á heimavelli. Þeir eru þó með sterkasta liðið í riðlinum að mínu mati."

"Það var líka fínt að þurfa ekki að fara mjög langt í útileikina því það munar um hvern klukkutíma sem menn þurfa að ferðast í þessu. Ætli verði ekki erfiðast að fara til Skopje í Makedóníu - það var engin skemmtireisa að fara þangað á sínum tíma."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×