Fótbolti

Átta ára bið Brassa á enda

Fabiano fagnar öðru marka sinna í gærkvöldi
Fabiano fagnar öðru marka sinna í gærkvöldi AFP

Luis Fabiano skoraði bæði mörk Brasilíumanna þegar þeir unnu 2-1 heppnisigur á Úrúgvæ í undankeppni HM í gærkvöldi. Leikurinn var sýndur beint á Sýn.

Markvörðurinn Julio Cesar kom Brasilíumönnum til bjargar oftar en einu sinni í gær þegar Brassar unnu sinn fyrsta sigur á öldinni á grönnum sínum. Sebastian Abreu kom Úrúgvæ yfir eftir aðeins 8 mínútur en Fabiano jafnaði skömmu fyrir hlé og skoraði svo sigurmarkið í síðari hálfleik.

Brasilíumenn eru komnir með 8 stig eftir fjóra leiki í Suður-Ameríkuriðlinum en Úrúgvæ hefur hlotið 4 stig.

"Við vorum ekki að spila vel í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Við vorum að gefa slæmar sendingar og missa boltann, en það er venjulega okkar helsti styrkur að halda boltanum vel," sagði Dunga, þjálfari Brassa.

"Við munum bæta okkur og það er engin ástæða til að kollvarpa öllu bara þó við eigum einn slæman leik. Ég er fyrst og fremst ánægður með að við næðum að ná í öll stigin þrátt fyrir að spila ekki okkar besta leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×