Enski boltinn

Ferguson styður tillögur Blatter

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson hefur nú tekið undir tillögur Sepp Blatter forseta FIFA sem vill setja hömlur á fjölda útlendinga í deildarkeppnum í Evrópu. Ferguson vill sjá meira af heimamönnum í liðum í ensku úrvalsdeildinni.

"Það væri betra fyrir leikinn og enska landsliðið ef væru fleiri heimamenn í toppliðunum. Ég er alveg sammála Blatter að þessu leiti en ég er hræddur um að þessar skoðanir hans falli í grýttan jarðveg hjá liðum eins og Liverpool og Arsenal. Mér finnst ekkert að því að lið ættu að hafa ákveðinn hluta af leikmönnum sínum heimamenn. Félögin vilja samt auðvitað verja sig og því finnst mér ekkert skrítið - og ekkert rangt við það - að Arsenal mótmæli þessu hvað harðast," sagði Ferguson.

"Þeir sem gagnrýna United segja kannski að þetta sé allt í lagi fyrir okkur af því við eru með enska leikmenn í ökkar röðum - en ég held að þeir sem eru hlutlausir vilji frekar hafa heimamenn í liðunum," sagði Ferguson.

Blatter hefur viðrað hugmyndir sínar um að takmarka fjölda útlendinga við fimm í hverju liði þar sem heimamenn fái tækifæri til að blómstra, en forráðamenn úrvalsdeildarinnar benda á það að slíkar takmarkanir gangi ekki vegna reglna Evrópusambandsins um frjáls atvinnuleyfi.

"Ég held að menn yrðu að gera sérstaka undanþágu fyrir úrvalsdeildina ef ætti að kýla þetta í gegn en ég held samt að þetta yrði samþykkt þrátt fyrir mótþróa frá liðum eins og Liverpool og Arsenal, sem eru með mikið af Frökkum og Spánverjum innan sinna raða," sagði Ferguson og bætti við að hann væri sammála tillögum Blatter í meginatriðum.

Arsene Wenger hjá Arsenal hefur gagnrýnt tillögur Blatter harðlega og segir þær muni "gera út af við úrvalsdeildina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×