Innlent

Svandísarmálið fer sína leið

Svandís Svavarsdótir.
Svandís Svavarsdótir. MYND/GVA

Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG í borgarstjórn segir ekki standa til að fella niður málshöfðun vegna eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur. Í Fréttablaðinu í gær var haft eftir Ragnari H. Hall að hann teldi ekki ólíklegt að málið verði fellt niður í ljósi þess að nýr meirihluti er tekinn við. Svandís segir hins vegar í samtali við Vísi að eðlilegt sé að málið fari sína leið í kerfinu.

„Þetta fer sína leið," segir Svandís. „Ég sé enga ástæðu til þess að láta ekki reyna á lögmæti fundarins, það eru engar breyttar forsendur hvað það varðar." Hún segir að málið verði því þingfest á morgun og mestu máli skipti að úr því verði skorið hvort fundurinn hafi verið lögmætur.

Svandís fer fyrir nefnd sem ætlað er að fara yfir REI málið í heild sinni. Hún segir að þar verði öllum steinum velt við og rýnt í smáatriði. Þar á meðal er samningurinn sem tryggir REI forgangsrétt á mörgulegum verkefnum OR á erlendri grundu næstu tvo áratugina, en þeim samningi var dreift á eigendafundi OR sem einskonar fylgiskjali með einni tillögunni sem lögð var fyrir fundinn. Þar að auki var samningurinn á ensku en eins og Svandís bendir á eiga allir fundarmenn sér annað móðurmál en ensku. „Við munum skoða allt málið í heild sinni, þar á meðal þennan samning," segir Svandís Svavarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×