Innlent

Setja þarf lög hið fyrsta um eignarhald orkulindanna

Það er ekki of seint að tryggja með lagasetningu að orkuauðlindirnar fari ekki úr almannaeigu segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hún segir það vandasamt verk en ekki ógerlegt.

Með sameiningu Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Invest eignaðist REI 48 prósenta hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Í samningi sem gerður var milli Orkuveitunnar og REI er einnig gert ráð fyrir að ef Orkuveitan kaupir hlut 15 prósenta Hafnarfjarðar í Hitaveitunni þá beri Orkuveitunni að selja hann áfram til REI á sama verði. Ef af yrði næði REI meirihlutaeign í Hitaveitu Suðurnesja. Ekki er gerð krafa um það í samningnum að REI sé að meirihluta til í opinberri eigu. Félagið gæti því allt verið í eigu erlendra og innlendra fjárfesta. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra hefur sagt í fréttum að hann sitji sveittur við þessa dagana að semja lög sem tryggja að orkuauðlindir landsins fari ekki úr almannaeigu. En hvaða leið er hægt að fara til þess að tryggja þetta?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist viss um það sé hægt en verkið sé vandasamt. Hún segir að hafa þurfi hraðar hendur.

Í ljósi atburða síðustu daga þá vaknar svo spurning hvort það sé ekki orðið of seint að setja slík lög. Ingibjörg Sólrún segir svo ekki vera en öllum megi vera ljóst hversu brýnt er að ganga hratt til verks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×