Innlent

Yfir 1200 útlendingar nema íslensku

Björn Gíslason skrifar
Gríðarlegur áhugi hefur verið fyrir íslenskunámskeiðum hjá Mími undanfarin misseri.
Gríðarlegur áhugi hefur verið fyrir íslenskunámskeiðum hjá Mími undanfarin misseri. MYND/Vilhelm

Ætla má að um 1200 manns hið minnsta leggi nú stund á íslenskunám reglulega, annaðhvort í skólum hér á landi eða á Netinu. Þá eru ótaldir þeir sem nema við erlenda háskóla. Nemendurnir koma hvaðanæva að, allt frá Brasilíu til Búrkína Faso.

Þóra Björk Hjartardóttir, greinarformaður í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands, segir erlendum nemendum sem leggja stund á íslensku hafa fjölgað allnokkuð undanfarin ár en í haust eru um 200 manns skráðir til náms í deildinni. Langflestir þeirra eru á fyrsta ári, eða um 140, og segir Þóra að margir þeirra séu skiptinemar sem taki eitt eða tvö námskeið í íslenskum samhliða öðru námi. Þá segir hún að þeim sem einungis leggi stund á íslensku hafa fjölgað, en þar á meðal sé fólk sem hafi sest að hér landi. Fá úrræði séu fyrir útlendinga hér á landi og námið við íslenskuskor það eina fyrir utan námskeið Mímis í íslensku.

Útrás í gegnum erlenda íslenskunema

Þóra bendir á að auk þess hafi fjöldi manna fræðilegan áhuga á íslensku. Það sé til að mynda fólk sem nemi norræn fræði eða málvísindi í öðrum löndum. Menntamálaráðuneytið hafi veitt um 30 styrki sem sérstaklega séu ætlaðir erlendum stúdentum. „Í þessum hópi eru verðandi þýðendur úr íslensku og fræðimenn sem rannsaka málið. Okkar útrás er í gegnum þetta fólk," segir Þóra Björk og bendir á að margir af þeim sem þýði bækur fyrir íslensk forlög sem fara á alþjóðamarkaði hafi numið við Háskóla Íslands.

Sextán þúsund skrá sig til íslenskunáms á Netinu

Auk íslenskukennslu fyrir erlenda stúdenta kemur HÍ að verkefninu Icelandic online sem er sjálfsnám í íslensku á Netinu. Að sögn Kolbrúnar Friðriksdóttur, sem unnið hefur að verkefninu, eru um 300 manns virkir í íslenskunámi á Netinu daglega en á einu ári hafa 16 þúsund skráð sig inn á síðuna til náms.

Boðið er upp á tvö námskeið, byrjendanámskeið og framhaldsnámskeið, og eru þau netnotendum að kostnaðarlausu. Kolbrún segir íslenskunema á Netinu um allan heim, allt frá Brasilíu til Búrkína Faso.

Aðspurð um ástæður fyrir vinsædlum íslenskunnar segir Kolbrún að tengja megi þetta auknum áhuga á Íslandi. Þá vilji margir kynna sér tungu sem fáir tala auk þess sem málfræði tungumálsins sé áhugaverð, þar á meðal hið flókna beygingarkerfi. Þá hafi söngkonan Björk og íslenski hesturinn átt sinn þátt í útbreiðslu íslenskunnar. Nemendur hafi skýrt áhuga sinn á tungunni meðal annars með því að þeir vilji skilja um hvað Björk sé að syngja. Þá séu margir forvitnir um land íslenska hestsins.

Hátt í 2000 í íslenskunám hjá Mími í ár

Hjá Mími símenntun eru 700 manns skráðir í íslenskunámskeið fyrir útlendinga í haust og stefnir í að þeir verði um tvö þúsund á þessu ári. Er það umtalsverð fjölgun frá síðasta ári þegar á bilinu 1550-1600 manns sóttu íslenskunámskeið.

Rósa S. Jónsdóttir, deildarstjóri fjölmenningar og frístunda hjá Mími, segir að um 900 manns hafi sótt um að komast í íslenskunám í haust. Aðspurð segir hún biðlista hafa myndast á íslenskunámskeiðum fyrir Pólverja en þeim hafi fjölgað mjög síðustu misseri sem vilji sækja þau. Bætt hafi verið við þremur námskeiðum í haust en ekki hafi verið hægt að taka alla inn þar sem skortur hafi verið á kennurum.

Alls er boðið upp á 50 íslenskunámskeið hjá Mími, þar á meðal fyrir Norðurlandabúa, Taílendinga, Austur-Evrópubúa og Kínverja. Rósa segir mesta aðsókn í byrjendanámskeiðin og býst við aðsóknin muni áfram aukast samfara fjölgun útlendinga hér á landi.

Menntamálaráðuneytið veitti í fyrra 100 milljónir króna til að styrkja íslenskukennslu í landinu en þeir fjármunir kláruðust á fyrri hluta þess árs. Því veitti ráðuneytið 100 milljónir til viðbótar til kennslu nú á haustönn. Verið er að ræða hvort áfram eiga að styrkja kennsluna en fjármunirnir hafa verið notaðir til þess að niðurgreiða íslenskunámskeið víða í samfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×