Innlent

Kettir í bóli húsráðanda

Kettir eru ekki alltaf vænstu skinn.
Kettir eru ekki alltaf vænstu skinn. MYND/GVA

Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu þurftu að beita allri sinni kænsku til þess að glíma við tvo óboðna gesti í í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði í síðustu viku. Þá barst lögreglunni tilkynning um miðja nótt frá karli á þrítugsaldri og óskaði hann eftir skjótri aðstoð vegna tveggja katta sem höfðu hreiðrað um sig í rúmi hans og létu mjög ófriðlega.

Þegar lögregla kom á vettvang hafði húsráðandi hrökklast út á svalir vegna hamagangsins en kettirnir voru enn innandyra. Útidyrahurðin var harðlæst og því snöruðust lögreglumennirnir upp á svalir og fóru þaðan inn í íbúðina.

Eftir því sem segir í frétt lögreglunnar báru kettirnir litla virðingu fyrir laganna vörðum og hvæstu sem mest þeir máttu. Þó tókst að lokum að stökkva þeim á brott með kústsköftum og hefur ekkert til þeirra spurst síðan. Segir lögreglan að húsráðandi hafi orðið glaður þegar kettirnir voru á bak og burt og er ekki annað vitað en hann hafi sofið vel það sem eftir lifði nætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×