Innlent

Áform um verslanakjarna á Barónsreit

Nýrri verslanamiðstöð á stærð við hálfa Kringluna er ætlað efla mannlíf í miðborg Reykjavíkur með því að soga fólkið úr úthverfunum. Samson Properties vonast til að fá að byggja hana upp á næstu þremur árum á Barónsreit, milli Laugavegar og Skúlagötu.

Danski arkitektinn Kim Nielsen segir að glerbyggingarnar eigi að minna á íslenskan jökul. Rétt eins og sprungur kljúfa skriðjökul þá verði glerhýsin klofin upp í einingar. Þéttsetinn salur Listasafns Íslands í morgun sýnir glöggt þann mikla áhuga sem er á þessum áformum fasteignafélagsins Samson Properties sem og skipulagsmálum miðborgarinnar. Hugmyndin er að á reit sem markast af Laugavegi, Vitastíg, Skúlagötu og Barónsstíg rísi verslanakjarni á 25 þúsund fermetrum, kvikmyndahús og veitingahús en einnig skrifstofur og íbúðir. Bílastæði verða á fjórum hæðum neðanjarðar og ekið inn í þau frá Skúlagötu en tengingar við Laugaveg verða eingöngu fyrir gangandi vegfarendur. Með þessum mannvirkjum vonast menn til fá fleira fólk til að koma í miðborgina.

Áformin eru á frumstigi en Samson-menn segja borgaryfirvöld hafa tekið hugmyndinni vel. Ef allt gengur upp vonast þeir til að geta opnað eftir þrjú ár, fyrir árslok 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×