Innlent

Þarf að halda sig inni vikum saman

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Um tuttugu prósent ungmenna hér á landi þjást af mis alvarlegu grasfrjókornaofnæmi. Sumartíminn getur verið þeim afar erfiður. Í sumum tilfellum þarf fólk að halda sig inni svo vikum skiptir.

Rán Ólafsdóttir er 15 ára og býr á Seltjarnarnesi. Hún greindist með mikið grasfrjókornaofnæmi níu ára gömul. Síðan hefur hún þurft að loka sig inni mestan hluta sumars þegar mikið er um frjókorn í loftinu.

Einkenni ofnæmisins eru ofsakláði í augum og tár, nefið stíflast og rennur úr því og hún fær ertingu í háls. Rán segir að það sé niðurdrepandi að vera alltaf inni.

Grasfrjókornaofnæmi er langalgengasta frjókornaofnæmið. Lok júlímánaðar og byrjun ágúst eru verstir á tímabilinu sem lýkur í ágúst.

Björn Árdal sérfræðingur í ofnæmis- og ónæmissjúkdómum segir að tímabilið hafi byrjað óvenju snemma í ár og tölur um frjókorn í loftinu hafi verið margfalt á við í meðalári.

Rán segir að það versta við ofnæmið sé að geta ekki verið úti og unnið í unglingavinnunni. Þá sé vont að þurfa að láta ofnæmið stjórna áhugamálunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×