Innlent

Náttúruverndarsinnar mótmæla í Kringlunni

Mótmælendurnir birtust skyndilega í verslunarmiðstöðinni berandi fána og syngjandi.
Mótmælendurnir birtust skyndilega í verslunarmiðstöðinni berandi fána og syngjandi. MYND/SIGGA

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgdi fyrir skömmu út hópi mótmælenda sem voru búnir að koma sér fyrir í Kringlunni í Reykjavík. Mótmælendurnir, sem eru af ýmsum þjóðernum,tengjast samtökunum Saving Iceland sem staðið hefur fyrir mótmælaaðgerðum við Kárahnjúkavirkjun á Austurlandi. Hollenskur talsmaður samtakanna undrast aðgerðir lögreglu og segir um friðsöm mótmæli að ræða.

„Lögreglan henti okkur út án sýnilegrar ástæðu," sagði Jaab Kraerder, talsmaður Saving Iceland, í samtali við Vísi. „Það var meira segja reynt að handtaka fólk."

Hópurinn samanstendur af um þrjátíu einstaklingum af ýmsum þjóðernum en með aðgerðum sínum var hópurinn að mótmæla stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var ekki reynt að handtaka mótmælendur. Að sögn lögreglunnar barst henni kvörtun frá stjórnendum Kringlunnar vegna hópsins. Voru lögreglumenn í kjölfarið sendir á svæðið til að tryggja að mótmælin færu friðsamlega fram. Að öðru leyti segist lögregla ekki hafa skipt sér af mótmælendum.

 

Mótmælendurnir eru nú staðsettir á bílastæði Kringlunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×