Innlent

Vistheimili ríkisins verða rannsökuð vegna Breiðuvíkur

Félagsmálaráðherra ætlar að láta rannsaka málefni vistheimilisins í Breiðuvík og fleiri stofnana og hagi þeirra sem þar voru vistaðir. Til greina kemur að greiða vistmönnum bætur vegna hrottalegrar meðferðar á heimilinu.

Formaður Samfylkingarinnar setti sig í samband við félagsmálaráðherra eftir að hafa horft á Kastljósið í gærkvöldi, þar sem karlmenn greindu frá hrottafenginni meðferð á sér þegar þeir voru börn á vistheimilinu á Breiðuvík á Vestfjörðum. En DV vakti athygli á málinu um þar síðustu helgi. Málið var svo rætt á Alþingi í dag.

"Þarna voru ung börn send fyrir atbeina opinberra aðila í útlegð ef svo má segja og ofurseld andrúmslofti ofbeldis og níðingsverka," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Samfélagið ætti þessu fólki skuld að gjalda og hún óskaði eftir því að félagsmálaráðherra beitti sér fyrir úttekt á þessum málum.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sagði ríkisstjórnina hafa rætt málið í morgun og menn verið sammála um að mikilvægt væri að rannsaka þau.

"Ég legg áherslu á að stjórnvöld taki fulla ábyrgð og rannsaki málið til hlýtar og að því er nú þegar unnið innan stjórnarráðsins," sagði félagsmálaráðherra.

"Ég vil fullyrða að það verður unnið hratt og örugglega að því að þetta mál verði sett í vandaðan farveg. Nauðsynlegt er að upplýsa málið vegna þeirra sem kunna að hafa sætt ómannúðlegri meðferð á stofnunum ríkisins og jafnframt vegna þeirra sem störfuðu í þágu ríkisins en hafa ekkert til sakar unnið, sagði ráðherra.

Guðrún Ögmundsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði afar brýnt að skoðað yrði hvernig bæði Norðmenn og Svíjar hefðu gert þetta. Það væri búið að dæma mjög stórum hópi fólks um fimmtugt bætur vegna svipaðra mála.

Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslynda flokksins og Steingrímur J Sigfússon formaður Vinstri grænna tóku í sama streng og Steingrímur spurði líka um núverandi kröfur og eftirlit í þessum efnum.

En það er ekki bara í félagsmálaráðuneytinu sem menn verða að skoða mál vistmanna á Breiðuvík og öðrum vistheimilum, því heimilin heyrðu lengst af undir menntamálaráðuneytið.

Þau börn sem dvöldu á Breiðuvík voru ekki eingöngu rænd sálarheill og lífi sínu heldur voru þau svikin um alla menntun.

"Í dag þegar verið er að ræna börn mentun þá segjum við að það sé verið að ræna börnin lífinu, það er bara þannig. Menntun í dag er tækifæri unga fólksins," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, sem ætlar að láta kanna þau gögn sem til eru um þessi mál í ráðuneyti menntamála.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×