Innlent

Mótmæla Urriðafossvirkjun

Ferðamenn sækja mikið í svæðið segir ferðafulltrúi Flóamanna.
Ferðamenn sækja mikið í svæðið segir ferðafulltrúi Flóamanna. MYND/Landsvirkjun

Ferðamálafélag Flóamanna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á sveitarstjórn Flóahrepps að standa við fyrri ákvörðun um að leggja fram aðalskipulag Villingaholtshrepps án þess að í því sé gert ráð fyrir Urriðafossvirkjun. Þannig verði staðin vörður um þessa einstöku náttúruperlu. Urriðafoss sé vatnsmesti foss landsins og vinsæll viðkomustaður ferðafólks. Hann sé því mikilvæg undirstaða þess að vel takist til um hina gróskumiklu uppbyggingu ferðaþjónustu í Flóahreppi sem Ferðamálafélag Flóamanna hefur meðal annars lagt grunn að.

Valdimar Össurarson, ferðafulltrúi Flóamanna, segir að Landsvirkjun hyggist þröngva sínum fyrirætlunum inn á aðalskipulag heimamanna og beiti til þess ýmsum aðferðum. Umhverfismat sem gert var fyrir löngu hljóti að teljast úrelt þar sem fjölmargar forsendur í því séu vafasamar og gjörbreyttar. Nægi þar að nefna hina ört vaxandi aðsókn ferðamanna að fossinum og þjónustu þeim tengdum. Einnig hafi aðilum í ferðaþjónustu fjölgað mikið á svæðinu, en þeir treysti meðal annars á að fossinn muni laða ferðafólk inn á svæðið, þó þar sé fjöldamargt annað skoðunarvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×