Innlent

Heilsugæslan í úlfakreppu

Jón Bjarnason, þingmaður VG.
Jón Bjarnason, þingmaður VG.

Stórfelldur niðurskurður blasir við í heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins með lokunum miðstöðva og skerðingu á þjónustu, ef ekki kemur til viðbótarfé. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna segir heilsugæsluna í úlfakreppu og með fjársveltinu sé verið að knýja hana inn í einkavæðingu.

Samanlagður halli á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er metinn á liðlega 400 milljónir króna. Þar fyrir utan hefur mönnum reiknast til að um 400 til viðbótar þurfi í reksturinn á næsta ári - ef halda á óbreyttri þjónustu. Stjórnendur heilsugæslunnar hafa lagt fram tillögur sem lúta meðal annars að því að skera þurfi niður Miðstöð heilsuverndar barna, miðstöð Mæðraverndar, miðstöð sóttvarna og skólaheilsugæsluna.

Ingibjörg Ásgeirsdóttir hjúkrunarforstjóri hjá Heilsugæslunni sagði í samtali við fréttastofu nú fyrir hádegið að þetta væri grafalvarlegt mál. Hún vildi ekki taka afstöðu til tillagna stjórnenda um niðurskurð - enda hefði hún ekki séð þær - en sagði að heilsuverndin væri hornsteinn sem ekki mætti hrófla við.

Vinstri grænir hafa lagt til á alþingi að halli heilsugæslunnar verði skorinn af og veitt nægilegt fé á næsta ári til að standa undir eðlilegri þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×