Innlent

Íbúar vilja ekki sjá mislæg gatnamót á Bústaðavegi

Stjórn íbúasamtaka Bústaðahverfis leggst alfarið gegn framkomnum hugmyndum um byggingu mislægra gatnamóta við Bústaðaveg. Þetta kemur fram í ályktun sem samtökin hafa sent frá sér. Íbúarnir segja slíka framkvæmd hafa í för með sér mikla aukningu umferðar um Bústaðaveg sem muni kljúfa hverfið „endanlega í sundur að óbreyttu."

Íbúarnir segja óviðundandi að auka umferðarþunga með slíkum hætti í íbúðarhverfi. Framkvæmdin myndi hafa í för með sér aukna slysahættu meðal annars við Bústaða- og Réttarholtsveg en mikil umferð skólabarna er á svæðinu.

Þá rýra mislæg gatnamót á þessum stað enn frekar möguleika barna ofan Bústaðavegar að sækja íþróttaæfingar hjá Víkingi, sem er íþróttafélag hverfisins.„Auk þess sem það skerðir önnur lífsgæði íbúa hverfisins."

Niðurstaða stjórnarinnar er því að framkvæmdin muni rýra búsetuskilyrði í hverfinu og að slíkt sé óásættanlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×